Farið var eftir vegi um Kaldadal og upp á Langjökul í Þjófakrók. Fyrst var farið upp á Geitlandsjökul og þaðan að Þursaborg. Færi var mjög gott upp á Geitlandsjökul en frekar þungt þriggja punda færi á Háubungu. Hvergi sást ber jökulís eða vísbendingar um sprungur. Það var talsverð umferð á jöklinum, það hafa líklega verið hátt í 100 bílar á ferðinni á jöklinum.
Á heimleiðinni skildu leiðir, sumir fóru niður hjá Slunkaríki. Á þeirri leið var þar töluvert meiri snjór en búist var við, það var mjög greiðfært alveg niður að Tjaldafelli. Síðan var frekar þunnt snjóalag austur af Skjaldbreiðinni og þar var keyrt aðeins á þúfukollum, s.s. mikið skjögt. En síðan þegar við komumst undir Skriðufellið var mjög greið og fín leið alveg niður á Lyngdalsheiði. Á þeim slóðum er töluvert meiri snjór en búist var við, allavega meðan allt er svona vel hart og frosið. Síðan er mjög skrítið að keyra fram af næstu brún fyrir neðan vörðuna Bragabót, en þar hverfur snjórinn gjörsamlega.
Hinir fóru niður af jöklinum í Þjófakrók og ýmist Kaldadal eða Borgarfjörð til síns heima.
Myndir úr ferðinni eru komnar á vefinn. Eins og sést á myndunum var frábært skyggni. Frost var um 15 gráður og austlægur vindur, oftast hægur. Tunglið var næstum fullt og sumir horfðu á Júpiter hverfa á bakvið það.
Útsýnið af Geitlandsjökli var frábært. Snæfellsjökull, Hofsjökul, Kerlingarfjöll, Hekla og Eyjafjallajökull sáust við sjóndeildarhringinn. Eiríksjökull gnæfði yfir okkur en við horfðum niður á Skjaldbreið og Hlöðufell, Þórisjökul, Esju og Skarðsheiði.