- Skófla
- Skófla þarf að vera í hverjum bíl.
- CB Talstöð
- Talstöðvar eru til mjög mikils hagræðis þegar ferðast er á fleiri en einum bíl, og þær eru mjög mikilvæg öryggistæki í ef slæm veður gerir á fjöllum. Almennt eru notaðar stöðvar sem farmleiddar eru fyrir Ameríkumarkað en þær senda með 4 W afli og AM mótun. Slíkar stöðvar uppfylla ekki reglur Pósts og Síma, en þrátt fyrir það virðist vera talsvert framboð á slíkum stöðvum hér. Í Bandaríkjunum kosta slíkar stöðvar frá 30 dollurum og loftnet frá 20 dollurum. Stöðvar sem uppfylla reglur Pósts og Síma eru verulega dýrari og senda 2.5 W á AM og 4 W með FM mótun. Menn ættu að varast stöðvar sem ráða eingöngu við FM. Ekki er sama hvernig gengið er frá loftneti.
- Dráttarkrókar
- Nauðsynlegt er að á hverjum bíl séu festingar fyrir dráttartaugar, bæði að framan og aftan. Dráttarkúlur henta ef tryggilega er frá þeim gengið. Það getur verið mjög hættulegt ef dráttarfestingar bila.
- Dráttartaug
- Fljótvirkasta tækið til að losa fastan bíl er oftast kaðall með hæfilegri teygju. Hvítt nælon tegist mun meira en önnur efni sem notuð eru í kaðla, eða um 30-50% af upphaflegri lengd. Tíu metra langur kaðall úr 20 mm næloni hefur slitþol upp á yfir 80 KN (8 tonn) og tegist nægilega til að taka hreyfiorku tveggja tonna bíls á 30 km/klst hraða. Best er að hafa splæstar lykkjur á endunum og lása til að festa í lokuð augu. Nælon kaðlar fást í Ellingssen. Ef úlpa eða eitthað svipað, er sett á miðjan kaðalinn, dregur það mikið úr hættu á tjóni ef eitthvað gefur sig.
- Loftmælir
- Loftmælir með upplausn upp á a.m.k. 0.5 psi niður í 1.5 psi, er ómissandi þegar loftþrýstingur er minnkaður. Eins þarf að hafa verkfæri til að fjarlægja pílur úr ventlum. (Reyndar er best að skilja pílurnar eftir heima).
- Loftdæla
- Einhvern veginn þar að koma lofti í dekkin aftur, öflugastar eru reimdrifnar dælur úr loftkælikerfum, en tvöfaldar fótpumpur sem víða fást, geta alveg dugað, sérstaklega ef fleiri ein er notuð samtímis. Þessar fótpumpur eru afkastameiri en litlar rafknúnar loftdælur. Öflugar rafmagnsdælur njóta vaxandi vinsælda, sérstaklega þar sem erfitt er að koma reimdrifinni dælu fyrir. Fini dælurnar sem m.a. fást hjá Fossberg og Byko, eru næstum jafn öflugar og kælipressurnar, og fást á tiltölulega hagstæðu verði.
- Farsími
- NMT farsímar hafa að mestu komið í stað Gufunes SSB talstöðvanna og eru mikilvægt öryggistæki í öllum ferðum. Það er hins vegar dýrt og óhentugt að nota þá til samskipta innan ferðahóps. NMT sími með góðu loftneti nær sambandi víðar en sýnt er á korti Landsímans. Þó er sumstaðar sambandslaust í dölum og á bakvið fjöll á hálendinu. VHF talstöðvar geta stundum nýst til að kalla á aðstoð eða láta vita af sér þar sem NMT nær ekki, sérstaklega í nágrenni endurvarpa. GSM kerfið nær lítið inn á hálendið. Þó er GSM samband sumstaðar þar sem framkvæmdir hafa verið, t.d. er GSM samband uppi á Hrafntinnuskeri. Gervitungla símar ná allstaðar og alltaf. Verðið á símunum er svipað og var á NMT fyrir daga GSM.
- Torfærutjakkur
- Þegar ferðast er einbíla utan vega er torfærutjakkur ómissandi og dugar til að losa úr flestum festum. Slíkt tæki þarf að vera til taks þegar dekk losnar frá felgu.
Einar Kjartansson