Ferðaklúbburinn 4x4 er félag áhugamanna um ferðalög og búnað fjórhjóladrifsbifreiða. Hann hefur m.a. að markmiði að gæta hagsmuna félagsmanna og auka þekkingu þeirra á öllu því sem varðar búnað fjórhjóladrifsbifreiða og ferðalög á þeim.
Annað markmið sem klúbburinn hefur sett sér er að gefa gott fordæmi um umgengni og verndun landsins með jákvæðri eftirbreytni og umræðu um náttúruvernd. Til að vinna að þessu markmiði var sett á fót umhverfisnefnd innan klúbbsins sem á undanförnum árum hefur staðið fyrir ýmsum náttúruverndarverkefnum.
Nefndin skipuleggur ferðir sem hafa það að markmiði að fræða þátttakendur, jafnframt því sem unnið er að ýmsum verkefnum.
Jónsmessuferð í Þórsmörk.
Fjölmennar landgræðsluferðir hafa verið farnar í Þórsmörk undanfarin ár, í samvinnu við Landgræðsluna. Unnið hefur verið að uppgræðslu á Merkurrananum á svæði sem var friðað fyrir sauðfjárbeit um 1990. Hér eru myndir úr ferðunum 2000, 2001og 2003.Stikuferð
Á haustin er farið í stikuferðir þar sem slóðir á hálendinu eru merktar og lagfærðar. Haustið 2000 var Klakksleið sunnan og austan Kerlingarfjalla stikuð, og haustið 2001 voru leiðir stikaðar í nágrenni Heklu. Haustið 2002 vor stikaðar leiðir nærri Sultarfit. 2003 og 2004 voru stikaðar leiðir á sunnanverðum Sprengisandi, Búðarhálsinn, leiðin frá Kvíslaveituvegi að Sóleyjarhöfðavaði og leiðir við Hreysiskvísl og Fjórðungskvísl.Einnig hafa verið farnar ferðir þar sem slóðir eru skráðar með GPS tækjum eða ferlaðar.
Sett hefur verið á laggirnar vefsíða til þess að safna saman upplýsingum um vegi (slóða). Þeir sem luma á slíkum upplýsingum er hvattir til að skrá sig á síðuna, og nýta hana til að koma þessum upplýsingum á framfæri.